Nýbakaður faðir spenntur fyrir styttingu
Daníel Arnar Magnússon, fluggagnafræðing, skortir ekki verkefni til að nýta aukinn frítíma
„Ég eignaðist mitt fyrsta barn í sumar svo ég er auðvitað spenntur fyrir því að stytta vinnuvikuna og eyða minni tíma í vinnunni og meiri tíma heima með stelpunni minni,“ segir Daníel Arnar Magnússon, fluggagnafræðingur. Hann skortir ekki verkefni til að nýta aukinn frítíma í eftir að vinnuvikan verður stytt. „Ég hef alltaf stundað ýmiskonar líkamsrækt en hef haft minni tíma í það eftir að barnið kom. Svo væri ég líka alveg til í að hafa meiri tíma til að sinna námi sem ég er í meðfram vinnunni.“
Stuðlar að auknu jafnrétti
Stytting vinnuvikunnar getur stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna. Almennt er það þannig í samfélaginu að konur eru líklegri til þess að minnka við sig vinnu til þess að sinna börnum og heimilisstörfum, sem hefur neikvæð áhrif á laun þeirra og framgang í starfi. Stytting vinnuvikunnar er því líkleg til þess að stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og inni á heimilinu með því að gefa feðrum betra tækifæri til að taka aukinn þátt í uppeldi og heimilisstörfum.