Á mínum vinnustað búum við mikinn sveigjanleika og fáum til dæmis að fara tvisvar í viku í líkamsrækt. Verður því hætt þegar vinnuvikan verður stytt?
Starfsfólk og stjórnendur móta nýtt vinnufyrirkomulag í sameiningu og greiða svo atkvæði um það. Hluti af því sem þarf að ræða er hvort eru skrepp og útréttingar séu heimilar á vinnutíma, svo sem vegna skóla barna, læknisheimsókna og þessháttar. Misjafnt er hvort stofnanir hafi heimilað áfram líkamsrækt á vinnutíma eftir að vinnuvikan var stytt og einhverjir drógu úr slíkum heimildum.
Til að stytting vinnuvikunnar stuðli einnig að skýrari skilum milli vinnu og einkalífs en sömu afköstum er þó ráðlagt að dregið sé sem mest úr skreppi. Almennt hefur myndast sú vinnustaðamenning þar sem vinnuvikan hefur verið stytt að fólk skreppur almennt ekki frá vinnu, vinnur vel og skipulega á meðan það er í vinnunni og skilar umsömdum vinnutíma, hvorki meira né minna.
Álagið er svo mikið á mínum vinnustað, hvernig á að vera hægt að stytta vinnuvikuna?
Ítrekað hefur verið sýnt fram á að stytta megi vinnuvikuna án þess að það bitni á afköstum, framleiðni, þjónustu vinnustaða eða öryggi. Um fjórðungur vinnustaða hjá Reykjavíkurborg og nokkrar stofnanir ríkisins svo sem Ríkisskattstjóri, Þjóðskrá, Útlendingastofnun og fleiri hafa gert tilraunir með því að stytta vinnuvikuna í 36 stundir.
Áður en farið var í styttingu voru framkvæmdar skipulagsbreytingar varðandi vinnufyrirkomulag, verklag, samvinnu og tímastjórnun til að ná fram markmiði um gagnkvæman ávinning starfsmanna og vinnustaðarins. Stjórnendur hafa litið á það sem tækifæri til umbóta og segja að þó vissulega sé það átak til að byrja með græði allir á því til framtíðar litið, enda hægt að vinna styttri vinnudag en skila engu að síður sömu eða meiri afköstum á vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu. Starfsfólkið sjálft þekkir sín störf best og hvar tækifærin liggja til að stytta vinnuvikuna en jafnframt viðhalda heildarafköstum vinnustaðarins.
Eigum við enga matar- og kaffitíma þegar vinnuvikan hefur verið stytt?
Ef vinnuvikan er stytt um meira en 65 mínútur á viku og allt að 4 stundir verður sú breyting á matarhléum að þau verða sveigjanlegri og styttri. Ef við göngum út frá því að starfsfólk ákveði að stytta vinnuvikuna um 4 stundir á viku þá mun starfsfólk mun eftir sem áður fá tækifæri til að nærast í hádeginu og grípa sér kaffibolla eða létta hressingu fyrir og eftir hádegi.
Misjafnt er á vinnustöðum hversu mikinn sveigjanleika fólk hefur. Þeir sem búa við mikinn sveigjanleika og geta staðið upp eða farið frá vinnu sinni án þess að leysa þurfi þau af halda þá svo til óbreyttu dagsskipulagi og taka sér stutt hlé eftir þörfum ásamt því að fá sér hádegismat. Þá verða hléin ekki tímasett og eru því sveigjanleg. Hjá öðrum hópum þarf að útbúa vinnutímaskipulag þar sem hléin eru tímasett eða sett fram með skýrum hætti hvernig þau geti brugðið sér frá í stutta stund til að nærast eða fara á salerni.
Hvenær tekur stytting vinnutíma fyrir dagvinnufólk gildi?
Í kjarasamningum var samið um að styttingin taki gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021. Breytingarnar verða innleiddar á hverjum vinnustað fyrir sig, þannig að stofnunum og vinnustöðum er heimilt að stytta vinnuvikuna fyrir þann tímapunkt.
Mun styttri vinnuvika leiða til aukinnar yfirvinnu?
Meginmarkmið breytinganna er að stytta heildarvinnutíma en ekki að hann færist í yfirvinnu. Þar sem vinnuvikan hefur verið stytt hefur heildarvinnutími almennt dregist saman. Algengt er settar séu reglur um að starfsfólki sé óheimilt að vinna yfirvinnu nema að fengnu leyfi yfirmanns og þá eingöngu vegna skorts á starfsfólki, óvænts álags og annarra tímabundinna aðstæðna.
Rétt eins og laun starfsfólks eiga ekki að lækka vegna styttri vinnuviku á heildarlaunakostnaður vinnustaðarins ekki að hækka vegna styttingarinnar. Í dagvinnu er lögð áhersla á að um gagnkvæman ávinning sé að ræða og því er það samstarfsverkefni starfsfólks og stjórnenda að finna bestu leiðina fyrir sinn vinnustað til að stytta vinnuvikuna.
Verður ekki bara meira stress ef við styttum vinnuvikuna (í dagvinnu)?
Nei, styttri vinnuvika felur sannarlega í sér að unnið er jafnvel og áður en á skemmri tíma en þátttakendur upplifa allir minna andleg og líkamleg streitueinkenni. Í þeim tilraunaverkefnum sem hafa verið framkvæmd þar sem vinnuvikan hefur verið stytt um 3 til 4 klukkustundir á viku kemur þetta skýrt fram og það dregur úr árekstrum milli vinnu og einkalífs.
Verður stytting vinnuvikunnar í dagvinnu útfærð með sama hætti fyrir alla starfsmenn á stofnun/vinnustað?
Það getur verið mismunandi á milli vinnustaða hvort sama fyrirkomulag henti öllum starfsmönnum eða öllum deildum. Þá er átt við hvort stytta eigi daglega, vikulega, hálfs mánaðarlega eða fara blandaða leið. Á einhverjum stöðum munu starfsmenn sjálfir eiga val um fyrirkomulag eftir því sem hentar þeim best. Á öðrum stöðum verður valin ein leið fyrir alla.
Af hverju er gildistaka breytinganna hjá vaktavinnufólki seinna en hjá dagvinnufólki?
Stytting vaktavinnu og þær kerfisbreytingar sem fylgja eru mun flóknari en í dagvinnunni, auk þess sem kostnaður fylgir breytingunum fyrir launagreiðendur. Í dagvinnu er gert ráð fyrir að hægt sé að endurskipuleggja vinnu og verkferla og afkasta því sama á styttri tíma. Í vaktavinnu mun þurfa að manna þann tíma sem nemur styttingu vinnuvikunnar, annað hvort með því að hlutastarfsfólk hækki starfshlutfall sitt eða með því að fjölga fólki. Það hefur í för með sér kostnað og tryggja þarf að fjármögnun liggi fyrir. Einnig er ljóst að breyta þarf þeim tölvukerfum sem halda utan um vaktaskipulag og ýmsar aðrar breytingar sem geta tekið tíma. Þess vegna var það mat samningsaðila að ekki væri hægt að stytta vinnuviku vaktavinnufólks fyrr en 1. maí 2021.
Af hverju vaktahvati?
Markmið vaktahvata er að umbuna því starfsfólki sem mætir oft til vinnu og vinnur óreglulega og fjölbreyttar vaktir utan dagvinnutímabils. Horft er til heilsu og öryggis starfsfólks og þjónustuþega og möguleika til þess að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf. Einnig á vaktahvatinn að hvetja til þess að öryggissjónarmið séu höfð að leiðarljósi þegar vaktir eru skipulagðar og lengd þeirra sé hæfileg, með það að markmiði að auka gæði opinberrar þjónustu.
Ef ég er í vaktavinnu af hverju ætti ég að vilja hækka við mig í starfshlutfalli en ekki taka tilfallandi yfirvinnu?
Markmið kerfisbreytinganna er að stuðla að aukinni heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika til að samþætta betur fjölskyldu- og atvinnulíf. Fyrirsjáanleiki í skipulagi vakta er mikilvægur til þess að stuðla að þessum þáttum.
Breytingarnar hafa það í för með sér að betra er að vera í hærra starfshlutfalli en að taka tilfallandi yfirvinnu. Ástæður þess eru m.a.:
- Vaktaálag hefur hækkað á næturvöktum, 65% vaktaálag á næturvaktir virka daga og 75% vaktaálag á næturvöktum um helgar. Tímakaup með álagi 65% og 75% er hærra en tímakaup í yfirvinnu.
- Vægi vinnustundar eykst utan dagvinnutíma í föstu starfi. Vægi hverrar vinnustundar á álagi 33% og 55% er metið á 1,05 og vægi vinnustundar á álagi 65% og 75% er metið á 1,2.
- Vaktahvati eykst við aukið starfshlutfall og aukna vaktabyrði sem getur skilað allt að 12,5% af mánaðarlaunum að teknu tilliti til starfshlutfalls.
- Meirihluti vaktavinnufólks er í hlutastarfi. Það sýnir að skekkja er í kerfinu þegar fáir treysta sér til að vera í 100% starfi. Breytingunni er ætlað að bregðast við því og þannig gengið langleiðina að kröfu BSRB til margra ára um að viðurkenna eigi að 80% starf í vaktavinnu jafngildi 100% starfi í dagvinnu. Starfsfólk sem er í 90% starfi eða lægra getur aukið við sig starfshlutfall sem nemur a.m.k. 10 - 12%. Þeir sem eru með þyngstu vaktabyrðina og í 80% starfi gætu farið í 100% starf án þess að vinna meira. Ávinningurinn yrði þá gagnkvæmur fyrir starfsmenn og starfsemi, þ.e. starfsmenn fá hærri laun og starfsemin meiri festu þar sem mönnunargat minnkar.
Hefur kerfisbreytingin hjá vaktavinnufólki áhrif á þann sveigjanleika sem ég hef nú þegar?
Breytingar á vinnutíma vaktavinnumanna mun þegar á heildina er litið ekki hafa áhrif á þann sveigjanleika sem starfsmenn hafa nú þegar. Mikilvægt er að umbótasamtal fari fram um skiplag vakta til að mæta kröfum starfseminnar eftir styttingu vinnuviku og auka virði kerfisbreytingarinnar fyrir starfsmenn. Á þeim stöðum þar sem starfsmenn geta valið sér vaktir sjálfir er gert ráð fyrir því að það haldi áfram.
Hver eru markmið breytinganna á vinnutíma vaktavinnufólks?
Markmið kerfisbreytinganna á vinnutíma vaktavinnufólks er að stuðla að aukinni heilsu og öryggi starfsfólks, auka möguleika þess til að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf og þannig gera starfsumhverfi vaktavinnufólks eftirsóknarverðara. Breytingunum er einnig ætlað að minnka yfirvinnu verulega, ýta undir aukinn stöðugleika í mönnun hjá stofnunum og vinnustöðum sem krefjast viðveru utan dagvinnutíma með betra skipulagi vinnutíma og þjónustu við almenning.
Hverjar eru helstu breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks?
Helstu breytingarnar sem felast í hinu nýja skipulagi vinnutíma vaktavinnufólks eru að vinnuvikan styttist úr 40 í 36 virkar stundir með möguleika á frekari styttingu fyrir fólk sem vinnur fjölbreyttar vaktir. Þá tekur launamyndun vaktavinnufólks mið af fleiri þáttum en áður. Vaktaálag á næturvöktum hækkar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta.
Breytingarnar eru til þess fallnar að koma betur til móts við áhrif vaktavinnu á heilsu, líðan og öryggi og koma til móts við kröfur stéttarfélaga um að erfiðara sé að vera í fullu starfi í vaktavinnu en í dagvinnu.
Hvernig verður breytingunum á vinnutíma vaktavinnufólks fylgt eftir?
Þar sem um mikla kerfisbreytingu er að ræða hefur verið stofnaður stýrihópur sem í eiga sæti öll bandalög launafólks auk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem og fulltrúar launagreiðenda frá ríki, sveitarfélögum og Reykjavíkurborg. Gerð hafa verið drög að mælikvörðum sem verður fylgt eftir mánaðarlega. Hagsmunir launagreiðenda og launafólks eru miklir og því er þörf á ríkulegri innleiðingu og eftirfylgni í stærri og minni hópum auk aðkomu hlutaðeigandi ráðuneyta og stjórnendum stofnana. Um er að ræða samábyrgð launagreiðenda og launafólks og því verður stýrihópur virkur á komandi misserum með það að markmiði að tryggja að forsendum kerfisbreytingarinnar sé náð.
Hvernig virkar ólíkt vægi vinnustunda utan dagvinnumarka?
Ólíkt vægi vinnustunda virkar þannig að vinnustundir utan dagvinnumarka hafa mismikið vægi þegar vinnuskil eru reiknuð. Vinnustundir sem greiddar eru á 33,33% og 55% vaktaálagi hafa vægið 1,05 þannig að fyrir hverjar 60 mínútur eru taldar 63 mínútur. Vinnustundir á 65% og 75% vaktaálagi hafa vægið 1,2 þannig að fyrir hverjar 60 mínútur eru taldar 72 mínútur. Ólíkt vægi vinnustunda tekur mið af öryggi og heilsu starfsmanna. Fjöldi vinnustunda getur lægst orðið 138,7 klst. á mánuði eða sem samsvarar 32 klst. á viku.
Dæmi: Starfsmaður sem vinnur 50% næturvaktir og er í fullu starfi getur farið niður í 138,7 klst. í vinnuskil á mánuði eða sem samsvarar 32 klst. í vinnuskilum á viku.