Á mínum vinnustað búum við mikinn sveigjanleika og fáum til dæmis að fara tvisvar í viku í líkamsrækt. Verður því hætt þegar vinnuvikan verður stytt?
Starfsfólk og stjórnendur móta nýtt vinnufyrirkomulag í sameiningu og greiða svo atkvæði um það. Hluti af því sem þarf að ræða er hvort eru skrepp og útréttingar séu heimilar á vinnutíma, svo sem vegna skóla barna, læknisheimsókna og þessháttar. Misjafnt er hvort stofnanir hafi heimilað áfram líkamsrækt á vinnutíma eftir að vinnuvikan var stytt og einhverjir drógu úr slíkum heimildum.
Til að stytting vinnuvikunnar stuðli einnig að skýrari skilum milli vinnu og einkalífs en sömu afköstum er þó ráðlagt að dregið sé sem mest úr skreppi. Almennt hefur myndast sú vinnustaðamenning þar sem vinnuvikan hefur verið stytt að fólk skreppur almennt ekki frá vinnu, vinnur vel og skipulega á meðan það er í vinnunni og skilar umsömdum vinnutíma, hvorki meira né minna.
Álagið er svo mikið á mínum vinnustað, hvernig á að vera hægt að stytta vinnuvikuna?
Ítrekað hefur verið sýnt fram á að stytta megi vinnuvikuna án þess að það bitni á afköstum, framleiðni, þjónustu vinnustaða eða öryggi. Um fjórðungur vinnustaða hjá Reykjavíkurborg og nokkrar stofnanir ríkisins svo sem Ríkisskattstjóri, Þjóðskrá, Útlendingastofnun og fleiri hafa gert tilraunir með því að stytta vinnuvikuna í 36 stundir.
Áður en farið var í styttingu voru framkvæmdar skipulagsbreytingar varðandi vinnufyrirkomulag, verklag, samvinnu og tímastjórnun til að ná fram markmiði um gagnkvæman ávinning starfsmanna og vinnustaðarins. Stjórnendur hafa litið á það sem tækifæri til umbóta og segja að þó vissulega sé það átak til að byrja með græði allir á því til framtíðar litið, enda hægt að vinna styttri vinnudag en skila engu að síður sömu eða meiri afköstum á vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu. Starfsfólkið sjálft þekkir sín störf best og hvar tækifærin liggja til að stytta vinnuvikuna en jafnframt viðhalda heildarafköstum vinnustaðarins.
Eigum við enga matar- og kaffitíma þegar vinnuvikan hefur verið stytt?
Ef vinnuvikan er stytt um meira en 65 mínútur á viku og allt að 4 stundir verður sú breyting á matarhléum að þau verða sveigjanlegri og styttri. Ef við göngum út frá því að starfsfólk ákveði að stytta vinnuvikuna um 4 stundir á viku þá mun starfsfólk mun eftir sem áður fá tækifæri til að nærast í hádeginu og grípa sér kaffibolla eða létta hressingu fyrir og eftir hádegi.
Misjafnt er á vinnustöðum hversu mikinn sveigjanleika fólk hefur. Þeir sem búa við mikinn sveigjanleika og geta staðið upp eða farið frá vinnu sinni án þess að leysa þurfi þau af halda þá svo til óbreyttu dagsskipulagi og taka sér stutt hlé eftir þörfum ásamt því að fá sér hádegismat. Þá verða hléin ekki tímasett og eru því sveigjanleg. Hjá öðrum hópum þarf að útbúa vinnutímaskipulag þar sem hléin eru tímasett eða sett fram með skýrum hætti hvernig þau geti brugðið sér frá í stutta stund til að nærast eða fara á salerni.
Hvenær tekur stytting vinnutíma fyrir dagvinnufólk gildi?
Í kjarasamningum var samið um að styttingin taki gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021. Breytingarnar verða innleiddar á hverjum vinnustað fyrir sig, þannig að stofnunum og vinnustöðum er heimilt að stytta vinnuvikuna fyrir þann tímapunkt.
Mun styttri vinnuvika leiða til aukinnar yfirvinnu?
Meginmarkmið breytinganna er að stytta heildarvinnutíma en ekki að hann færist í yfirvinnu. Þar sem vinnuvikan hefur verið stytt hefur heildarvinnutími almennt dregist saman. Algengt er settar séu reglur um að starfsfólki sé óheimilt að vinna yfirvinnu nema að fengnu leyfi yfirmanns og þá eingöngu vegna skorts á starfsfólki, óvænts álags og annarra tímabundinna aðstæðna.
Rétt eins og laun starfsfólks eiga ekki að lækka vegna styttri vinnuviku á heildarlaunakostnaður vinnustaðarins ekki að hækka vegna styttingarinnar. Í dagvinnu er lögð áhersla á að um gagnkvæman ávinning sé að ræða og því er það samstarfsverkefni starfsfólks og stjórnenda að finna bestu leiðina fyrir sinn vinnustað til að stytta vinnuvikuna.